Fjórðungssamband Vestfirðinga kynnir í vikunni skýrslu Eflu – verkfræðistofu um mat á orkuþörf sviðsmynda um mögulega þróun atvinnu og mannlífs á Vestfjörðum árið 2035.
Raforkuþörf á Vestfjörðum er metin svo að hún geti verið rúmlega 60% meiri en Orkuspánefnd sem spáir fyrir um. Spá nefndarinnar er lögð til grundvallar tillögu Landsnets að Kerfisáætlun fyrir árin 2020-2029.
Skýrslan var unnin fyrir FV sem hluta af langtímaverkefni sambandsins um eflingu orkuframleiðslu og flutningsmál raforku á Vestfjörðum.
Forsendur að skýrslunni eru sóttar í skýrslu sem Vestfjarðastofa fékk Karl Friðriksson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framtíðarsetri Íslands og Sævar Kristinsson hjá KPMG til þess að vinna og kom út í maí 2019. Sú skýrsla heitir Á krossgötum og bregður upp sviðsmyndum um mögulega þróun atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum árið 2035.
Lagt var mat á raforkuþörf á Vestfjörðum árið 2035 samkvæmt sviðsmyndunum Vestfirðir í sókn og Vestfirski þjóðgarðurinn.
Spá Orkunefndar
Óbreytt kalkþörungavinnsla. Íbúafjöldi 6.500 manns. Fiskafli 60.000 tonn.
Vestfirski þjóðgarðurinn
Í sviðsmyndinni Vestfirski þjóðgarðurinn er fjölskrúðugt menningar- og listalíf sem nýtur opinbers stuðnings. Lítið er um fullvinnslu afurða enda er krafa um framhaldsmenntun lægri en í öðrum greinum. Talsverð aukning í ferðaþjónusta á svæðinu en fiskeldi og kalkþörungavinnsla hefur lagst af. Smábátaútgerð er umtalsverð. Hægfara fækkun íbúa. Brothætt samfélag með einhæft atvinnulíf. Fiskafli 40 þúsund tonn. Íbúafjöldi 7.000.
Vestfirðir í sókn
Í sviðsmyndinni Vestfirðir í sókn hefur skapast öflugt alþjóðlegt atvinnuog mannlíf á Vestfjörðum. Mannlíf er gróskumikið og nýsköpun og tækniþróun einkennir atvinnulífið. Atvinnugreinar einkennast af háu tæknistigi þar sem lögð er áhersla á hátt
virði afurða. Nýjar atvinnugreinar sem byggja á sérstöðu svæðisins. Þrátt fyrir aukna velferð þá eru ekki allir á eitt sáttir við hinn öra vöxt sem einkennir öll svið samfélagsins. Aukning í kalkþörungavinnslu og 70 þúsund tonna fiskeldi á ári. Fiskafli 80.000 tonn. Íbúafjöldi 9.000.
Núverandi raforkunotkun á Vestfjörðum er um 245 GWh og hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Dreifitöp á Vestfjörðum er um 14 GWh og er raforkunotkun að meðtöldum dreifitöpum nærri 260 GWh.
Í spá Orkuspárnefndar er aukning raforku um 0,8% á ári og vex úr 250 GWh upp í 300 GWh árið 2035.
Niðurstaðan fyrir raforkunotkun er að í Vestfjörðum í sókn nemi raforkunotkunin um 475 GWh og munar þar mestu um aukna raforkunotkun í kalkþörungavinnslu. Raforkunotkun eykst að sama skapi með auknum fólksfjölda og nemur sú aukning um 45 GWh.
Í Vestfirska þjóðgarðinum er raforkunotkunin um 40 GWh minni en í raforkuspá árið 2035.
Niðurstaðan er að raforkuþörf á Vestfjörðum geti verið rúmlega 60% meiri en Orkuspánefnd árið 2035 gerir ráð fyrir sé miðað við sóknarsviðsmyndina sem byggir á fiskeldinu og aukinni kalkþörungavinnslu.