Margt höfum við lært af náttúruöflunum og veirufaraldrinum á liðnum mánuðum. Eitt af því er að það skiptir máli hvernig hinum svokölluðu innviðum er háttað.
Illviðri og náttúrhamfarir vetrarins afhjúpuðu það rækilega hvernig fer þegar ekki er staðið sómasamlega að viðhaldi og uppbyggingu raforkukerfisins. Heilu landshlutarnir fóru á augabragði marga áratugi aftur í tímann þegar veikburða raforkukerfi gaf sig. Raforkukerfi sem ekki hefur verið hægt að byggja upp m.a. vegna sífelldra kærumála fólks í fjarska. Uppskera þeirrar stefnu var myrkur og kuldi svo dögum og vikum skipti á mörgum svæðum.
Á sama tíma kom í ljós að brottflutningur ýmissa starfa hefur gengið of langt. Ofurtrú sumra að öll heimsins vandamál í nærþjónustu sé hægt að leysa frá höfuðborgarsvæðinu beið mikið skipbrot.
Í veirufaraldrinum var það um margt á hinn veginn. Á nánast einni nóttu tókst að flytja stóran hluta atvinnulífs heim til starfmanna. Sem dæmi má nefna ýmsar stofnanir og þjónustufyrirtæki sem áður var talið að gætu bara starfað á dýrasta bletti landsins, urðu nú til húsa á mörg hundruð stöðum allt í kringum landið. Nánast enginn sem þjónustuna nýtti tók eftir því. Þetta tókst vegna þess að á undanförnum árum hefur landið með skipulögðum hætti verið ljósleiðaravætt. Innviðirnir hafa verið byggðir upp en ekki veiktir.
Það er því eins og hver önnur öfugmælavísa þegar samtök sem eru hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims og sinna m.a. fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi í þágu almannavarna virðast ekkert hafa lært og leggja nú niður starfsemi sína á landsbyggðinni. Flytja störfin til Reykjavíkur.
Svo mikil er reisnin yfir þessari ákvörðun að formaður og framkvæmdastjóri samtakanna fóru í felur að henni lokinni.
Halldór Jónsson