Þjóðminjasafn Íslands safnar frásögnum um ísbirni

„Ísbjarnarsögur“ er heiti á nýrri spurningaskrá sem Þjóðminjasafn Íslands sendir út um þessar mundir. Tilgangurinn með henni er að safna minningum fólks um ísbirni með áherslu á að rannsaka ferðir þeirra til Íslands í sögulegu og samtímalegu samhengi. Spurningaskráin er hluti af þriggja ára rannsóknarverkefni sem unnið er í samstarfi íslenskra og alþjóðlegra háskóla og safna. Það er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís 2019-2021.

 

Spurningaskránni er svarað á vefsíðu menningarsögulega gagnasafnsins Sarpur, https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=2083958. Þær frásagnir sem berast verða varðveittar um ókominn tíma og gerðar öllum aðgengilegar, nema annað sé tekið fram. Nöfn heimildarmanna birtast ekki.

 

Markmið rannsóknarverkefnisins, sem ber heitið „Ísbirnir á villigötum“, er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum loftslagshlýnunar og hækkandi sjávarmáls. Unnið verður út frá sjónarhorni samtímlista, þannnig að í verkefninu verða mörk menningar og raunveruleika skoðuð, samverkandi áhrif loftslagsbreytinga á umhverfisrof og fólksflutninga. Í rannsókinni verður safnað saman textum, myndum, hljóði, lífsýnum og öðru efni sem tengist ferðum ísbjarna til landsins.

 

Verkefnið er hýst innan Listaháskóla Íslands og er unnið undir stjórn aðalrannsakendanna Bryndísar H. Snæbjörnsdóttur, prófessors við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, og Mark Wilson, prófessors í myndlist við University of Cumbria í Bretlandi. Meðrannsakendur verkefnisins eru Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjóndóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið þvert á fræðigreinar, en þátttakendur koma úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands, Institute of the Arts í University of Cumbria (UK), félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Samstarfsstofnanir eru Þjóðminjasafn Íslands, Anchorage Museum í Alaska (US), Listasafnið á Akureyri, Bureau of Ocean Energy Management (US) og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum.

 

 

DEILA