Staðarkirkja stendur í Staðardal fyrir botni Steingrímsfjarðar á Ströndum. Talið er að þar hafi verið prestsetur frá frumdögum kristni á Íslandi. Kirkjan var í kaþólskum sið Maríukirkja.
Kirkjan á Stað var um tíma í hálfgerðri niðurníðslu eftir að Hólmavíkurkirkja tók við hlutverki hennar, en var síðan tekin til gagngerra endurbóta.
Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands beitti sér fyrir stofnun sjóðs í því skyni eftir heimsókn á Strandir 1981.
Viðgerðunum lauk árið 1990 og þá var kirkjan endurvígð. Kirkjan var endurbyggð í upphaflegum stíl, að því frátöldu að turninn sem er síðari tíma viðbót var látinn halda sér.
Þá var kirkjugarðurinn stækkaður og girtur að nýju.
Staðarkirkja við Steingrímsfjörð er timburhús, 11,46 m að lengd og 4,83 m á breidd.