Nóa Síríus nammi og menningarmoli ÆFINGAR

F.v.: Böðvar Gíslason, Helga Beck, markaðsstjóri Nóa Síríus, Eva Dögg Egilsdóttir og Björn Ingi Bjarnason.

Sælgætisgerðin Nói Síríus er að fagna 100 ára afmælinu á þessu ári með ýmsum hætti. Í tilefni aldarafmælisins var opnuð glæsileg sýning um sögu fyrirtækisins á Árbæjarsafni í dag, föstudaginn 3. júlí 2020. Þar má skoða forvitnilega muni, umbúðir, gamlar auglýsingar og vörur — og rifja upp kynnin við fjölmarga sælgætismola af öllum stærðum og gerðum.

Nói Síríus hefur deilt sætum minningum með Íslendingum í heila öld og fyrirtækið ætlar að gera það áfram.

Gott dæmi um sérlega bragðgóðar minningar með Nóa Síríusi er lag og texti Siggi Björns í laginu frábæra með hljómsveitinni ÆFINGU  frá Flateyri um Allabúðina þar í bæ. Í textanum er PIPP súkkulaðið  frá Nóa Síríusi gert réttilega að frábærum mannlífs- og mennigarmola.

Í gærmorgun, fimmtudaginn 2. júlí 2020, fóru tveir af einlægum aðdáendum hljómsveitarinnar ÆFINGAR í afmælisheimsókn í Nóa Síríus í Reykjavík og afhentu hljómdisk ÆFINGAR frá 45 ár afmæli hljómsveitarinnar árið 2013. Þetta voru; Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka og Böðvar Gíslason í Þorlákshöfn. Gerðu þeir að sínum hætti grein fyrir hinum sögulega grunni textans innihaldsríka í laginu um Allabúð.

Í lok stundarinnar ánægjulegu í gærmorgun fengu Björn Ingi og Böðvar sætar gjafir með þökkum fyrir þessa óvæntu afmælisheimsókn. Jafnframt var Sigga Björns og ÆFINGU boðið í heimsókn í Nóa Síríus næst þegar hann kemur til landsins. Siggi Björns hefur starfað sem tónlistarmaður erlendis í nær því fjóra áratugi, aðallega í Danmörku og Þýskalandi. Hefur þetta góða boð Nóa Sírius þegar verið þegið og verður við fyrsta tækifæri.

Björn Ingi Bjarnason,
menningarfulltrúi hljómsveitarinnar Æfingar frá Flateyri.

DEILA