Minningargrein um Sigríði J. Norðkvist

Á öndverðum áttunda áratug aldarinnar sem leið kom nýr sóknarprestur til Bolungarvíkur og tók við af góðklerkinum síra Þorbergi Kristjánssyni, viðbrigða reglusömum embættismanni.  En ekki var meira en svo, að sá minnstur djákn í Guðs kristni, sem hér var kominn, kynni almennilega að messa.   Mikið lifandis skelfingar heimsins óttalega ósköp var hann heppinn að organisti við Hólskirkju skyldi þá vera heiðurskvinnan Sigríður J. Norðkvist.  Það var ekki einasta að hún væri allra kvenna þýðust í viðmóti og ljúfust í umgengni heldur kunni hún upp á sína tíu fingur, bæði aftur á bak og áfram, messuliðina við hina hugfelldu tónlist Sigfúsar Einarssonar með öllum þeim fíngerðu afbrugðningum er þar heyra til  og hvað greinilegastir verða í víxlsöng prests og safnaðar við sæluboð frelsarans í Fjallræðunni; þar er vart merkjanlegur munur á tóni prests annars vegar og svörum safnaðar hins vegar, skakkar ekki nema einum, tveimur sveiflum upp eða niður, eftir því sem fram vindur.  Og ekki vafðist heldur fyrir henni að skipta um messusvör eftir tímabilum kirkjuársins, sem ýmsum var löngum kærkomin tilbreyting. En klassísk messa, sem ætíð er nákvæmlega eins að sínu leyti, ár út og ár inn, hafði í þennan tíma ekki enn náð fótfestu á Vestfjörðum.  Sigga var handviss að lesa hljóð af blaði; Jónas Tómasson eldri, tónskáld á Ísafirði, hafði kennt henni að spila og hún hafði lært af honum þá eðlu kúnst að sleppa aldrei fingri af lykli fyrr en viðtakandi puti væri kominn á sinn stað;  hún batt og tengdi tóna og hljóma svo fagurlega, að unun var á að hlýða, í stað þess að láta höggin ríða á hljómborðinu að fornum sið.

Hún var ábyggileg svo af bar, og hvert  orð hennar stóð eins og stafur á bók. Eins var og stundvísi hennar viðbrugðið.  Ef þurfti af bæ að halda húskveðju utan sóknar, stóð hún með nótnatöskuna ferðbúin á dyrahellunni heima hjá sér, þegar sjálfrennireiðin, sem komin var að sækja hana, lagðist þar að.

Sigga Nóa var einstök kona í veröldinni, frábær guðsmanneskja og góðkvendi.  Í áratugi var hún organisti í Hólskirkju, háttvís, hljóðlát og talfá hversdagslega; vissi enginn til þess að hún hefði nokkru sinni byrst sig við söngfólkið í kirkjukórnum utan einu sinni að sagt var.  Þá var kominn kyndugur kennimaður að prestakallinu og kaus að hafa við messu næsta sunnudags skelfilega sjaldgæfan sálm sem ekki nokkur manneskja hafði heyrt áður, aldrei nokkurn tíma, hvergi nokkurs staðar.  Kom að vonum upp kurr í söngflokknum, en sögn var að Sigga Nóa hefði þá mælt til fólksins vængjuðum orðum:  “Þið syngið þetta bara steinþegjandi og hljóðalaust!”

Þegar hún sótti um starf kirkjuvarðar í Reykjavík  fékk sóknarnefndin bréf frá ónefndum velunnara hennar og þar stóð að bréfritarinn hefði sjálfur þótt lipurmenni að hófi, en á samstarf hans við Sigríði J. Norðkvist hefði aldrei borið skugga.  Þeir flýttu sér að ráða Siggu Nóu og sáu ekki eftir því.

Ástvinum öllum er flutt innileg samúð.  Guð blessi minningu góðrar konu, Sigríðar J.Norðkvist.

Gunnar Björnsson

DEILA