Guðjón Brjánsson: andsnúinn sérstakri gjaldtöku í jarðgöngum

Guðjón Brjánsson, alþm. segir að hann sé andsnúinn sérstakri gjaldtöku í jarðgöngum sem einangraðri ákvörðun. „Það bitnar með mjög óréttlátum hætti á íbúum þeirra svæða sem eiga ekki aðra raunverulega kosti en að aka um jarðgöng í sínu nærumhverfi, á sínu búsetusvæði.“

Guðjón var inntur eftir afstöðu sinni til áforma eða hugmynda um að taka upp gjaldtöku í jarðgöngum landsins sem varið yrði til að greiða stofnkostnað af nýjum jarðgöngum.

Hann bætir við eftirfarandi:

„Hins vegar er ekkert hægt að loka augunum fyrir því að nauðsynlegt er að endurskoða gjaldtöku af umferðarmannvirkjum okkar almennt í ljósi orkuskipta og þverrandi tekna af jarðefnaeldsneyti. Umgjörð um slíka gjaldtöku hefur ekki verið kynnt og því er þessi nálgun ótæk að mínu áliti.  Ég gerði grein fyrir afstöðu minni í ræðum um samgönguáætlun og PPP verkefnin eins og hér má sjá að neðan:

í 2. umræðu um samgönguáætlun þann 15. júní, þá skilaði ég minnihlutaáliti og í ræðunni þegar ég mælti fyrir því sagði ég:

Í samgönguáætlun eru boðuð notendagjöld í öllum jarðgöngum en útfærsla ekki rædd frekar á þessu stigi.

  1. minni hluti leggst gegn svo afdráttarlausu ákvæði og telur óásættanlegt að íbúar sem eiga ekki aðra kosti en að aka um jarðgöng á sínu búsetusvæði taki á sig beinar auknar álögur. Minnt er á að vegfarendur hafa t.d. þegar gert skil á greiðslum vegna heilla Hvalfjarðarganga að fullu og öllu og eru tregir að taka upp þráðinn að nýju.

 

Ég var líka með sérálit 2. minnihluta í PPP málinu um samvinnuverkefni í vegframkvæmdum sem ég mælti fyrir þann 26. júní og endurtók það sama:

………… Skal þess getið af hálfu 2. minni hluta að í samgönguáætlun sem nú er til lokaafgreiðslu á Alþingi eru með sama hætti boðuð gjaldtaka fyrir akstur um öll jarðgöng en útfærsla á þeim ekki rædd fremur en á öðrum sviðum þegar kemur að umfjöllun um veggjöld.  Annar minni hluti leggst gegn svo afdráttarlausu ákvæði og telur óásættanlegt að íbúar sem eiga ekki annarra kosta völ þurfi að bera aukinn kostnað sem af þessu leiðir. 

 

Og svo þetta, síðar í sömu ræðu:

 

Við erum hins vegar í fyrri hluta ferlis í orkuskiptum í umferð og fyrirsjáanlegt að endurskoða þarf í heild gjaldtöku af umferð um vegakerfi Íslands.  Við teljum óráðlegt að fikta með ómarkvissum og óréttlátum hætti í skattalegum álögum á bifreiðanotkun sem munu bitna af tvöföldum þunga á vegafarendum næstu árum, sérstaklega íbúum á fyrirhuguðum gjaldtökusvæðum.  Þessi heildarendurskoðun hefði þurft að liggja fyrir nú þegar í upphafi þessara framkvæmda, þótt ekki sé nema drög að umgjörð.  Í því sambandi hafa menn t.d. verið nefnd km gjöld.“

 

 

DEILA