Í Furufirði á Hornströndum er lítið bænhús sem þjónaði söfnuði sínum norðan Skorarheiðar meðan búið var þar.
Lokið var við að reisa bænhúsið í Furufirði sumarið 1899 og hafði Benedikt Hermannsson bóndi í Reykjarfirði yfirumsjón með verkinu. Benedikt gaf og hjó til úr rekaviði grindina í húsið en Norðmenn sem ráku hvalveiðistöð á Meleyri í Veiðileysufirði gáfu panelklæðningu í húsið.
Benedikt og Ketilríður Jóhannesdóttir kona hans gáfu klukku í bænhúsið og Benedikt smíðaði henni armböld og kom klukkunni fyrir. Bænhúsið í Furufirði var vígt þann 2. júní 1902.
Meðan búið var á svæðinu var bænhúsinu þjónað frá Stað í Grunnavík, en eftir að Staðarprestakall lagðist af hefur því ýmist verið þjónað frá Ísafirði eða Bolungarvík.
Erfiðleikar við að koma líkum til greftrunar voru ein helstu rökin fyrir því að reisa bænhús í Furufirði. Kringum bænhúsið í Furufirði er lítill kikjurgarður lautóttur og hnjúskóttur. Girðingin er fallin en stærð garðsins er mörkuð með hornstaurum.
Flestir þeir sem létust í Grunnavíkursókn norðan Skorarheiðar eftir síðustu aldamót eru grafnir við bænhúsið. Nokkrir krossar standa upp úr gróðrinum og má þar lesa nöfn þeirra sem þar hvíla. Vitað er um nöfn flestra sem þar liggja og fá leiði óþekkt.
Síðast var jaðrsett í Furufirði árið 1949.