Hreppsnefnd Árneshrepps hefur fengið staðfestingu frá Vegagerðinni á styrkveitingu úr styrkvegasjóði.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að styrkurinn væri 1,4 milljónir króna. Verið væri að athuga hvar best er að nýta féð til vegabóta. Einkum er horft til þess að nota fjárveitinguna í Naustvík og Kúvíkum sem báðar eru í Reykjarfirði.
Á síðasta ári fékkst einnig 1,4 m.kr. styrkur úr styrkvegasjóði og var ákveðið að verja fénu til útbóta, rétt eins og nú, í Naustvík og Kúvíkum.
Í Kúvíkum var lítið þorp í utanverðum Reykjarfirði sunnanmegin. Þorpið var eini verslunarstaðurinn í Strandasýslu um aldir þangað til Borðeyri við Hrútafjörð varð löggiltur verslunarstaður 1846. Verslun og búseta lögðust af í Kúvíkum á 20. öld þegar síldarævintýrið í Djúpavík byrjaði og fluttist öll verslun þangað á þeim tíma.