Vegagerðin hefur sett upp upplýsingaskilti um fyrstu veggöng á Íslandi, í Arnarneshamri á Djúpvegi. Skiltið er staðsett á Vébjarnareyri norðan við göngin. Hafist var handa við gerð ganganna 1946 en frá var horfið þá þar sem borkrónurnar þoldu ekki hið harða berg sem er í hamrinum. Eftir að hafa fengið nýjar borkrónur frá Englandi 1948 voru svo göngin gerð haustið 1948 og vegurinn til Súðavíkur opnaðist 1949. Göngin voru svo breikkuð og lagfærð 1995 með tækjum sem voru notuð í gerð jarðganganna um Breiðadals- og Botnsheiði.