Ófært á Snæfjallaströnd og Vegagerðin vill ekki moka

Horft af leitinu yfir Lónseyrina í síðustu viku. Mynd: Jón Halldórsson.

Vegna þess að mikið snjóaði á við norðanvert Djúp í vetur þá er stórt haft í svokölluðu Leiti við utanvert Kaldalón og vegurinn ófær út á Snæfjallaströndina. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta hefur Vegagerðin neitað að moka veginn vegna mikils kostnaðar við það verk. Á Snæfjallaströnd er rekin ferðaþjónusta yfir sumartímann fyrir utan að þar eiga þrír aðilar lögheimili  auk þess sem sumarhúsaeigendur (áður bændur í heilsárshúsum)  hafa ekki komist til að athuga með sínar eignir eftir harðan vetur. Nú standa málin þannig að vegna fjárskorts á ekki að moka heldur láta snjóinn bráðna. Að óbreyttu má þá þess vænta að vegurinn verði fær  í júlí.

Mikilvægt er að opna veginn fyrir Kaldalón sem allra fyrst vegna öryggissjónarmiða og ferðaþjónustu á svæðinu. Í Æðey eru íbúar með lögheimili á Snæfjallaströnd sem komast ekki þangað nema með bát frá Ögri eða Ísafirði. Dúntekjutímabilið er í gangi núna í eynni. Ferðahópar eru væntanlegir með bátum frá Ísafirði í júní. Hafnadeild Vegagerðarinnar er að undirbúa viðgerð á bryggjunni í Bæjum í sumar í samstarfi við Neyðarlínuna.  Þá er auk þess viðgerð á fjórum brúm á svæðinu í undirbúningi en ráðast á í þær í sumar.

Snæfjallahreppur var áður sjálfstætt sveitarfélag en fékk Grunnavíkurhrepp til sín 1963 og  sameinaðist svo Ísafjarðarkaupstað 1994. Snæfjallaströndin er því hluti af Ísafjarðarbæ.

DEILA