Miklar hækkanir á matvöru á síðasta ári

Í verðlagskönnun Alþýðusambandsins kemur fram að á einu ári hefur vörukarfa ASÍ hækkað um 2,3%-15,6% í átta verslunarkeðjum en vörukarfan endurspeglar almenn matarinnkaup meðal heimils.

Í sex verslunarkeðjum af átta hækkar vörukarfan um yfir 5%. Mest hækkaði vörukarfan í Kjörbúðinni eða um 15,6% og næst mest í Krambúðinni um 13,6%.
Minnst hækkaði verðið í Tíu ellefu á tímabilinu, 2,3% og næst minnst í Iceland um 3,4%.

Til samanburðar hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum í vísitölu neysluverðs um 4,86% frá maí 2019- maí 2020.

Töluverðar verðhækkanir má finna í öllum vöruflokkum en verð á grænmeti og ávöxtum hækkaði langmest á þessu 12 mánaða tímabili.

Á eftir þeim vöruflokki má sjá mestar hækkanir í flokki brauðs og kornvara og hreinlætis- og snyrtivara. Minnstar verðhækkanir voru á sykri, súkkulaði, sælgæti og drykkjarvörum.

Minnstar verðhækkanir hjá Bónus af lágvöruverðsverslununum

Þegar verð hjá lágvöruverðsverslununum er skoðað má sjá minnstar verðhækkanir í Bónus en þar hækkaði verð um 5,2% á meðan verð hækkaði um 7,9% í Nettó og 9% í Krónunni.

Vörukarfan hækkar um 15,6% í Kjörbúðinni og 13,6% í Krambúðinni

Mestar verðhækkanir voru eins og fyrr segir í Kjörbúðinni 15,6% en verslanir í þeirri keðju eru staðsettar á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Næst mest hækkaði verð í Krambúðinni um 13,6% en Krambúðirnar eru hverfisverslanir sem eru bæði staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Vörukarfan hækkaði minnst í Tíu ellefu, 2,3% og næst minnst í Iceland, 3,4% en báðar verslanir eru þekktar fyrir langan opnunartíma. Vörukarfan hækkaði um 5,2% í Hagkaup.

DEILA