Hverfisráð Holta-, Tungu- og Seljalandshverfa í Skutulsfirði óskar eftir að framkvæmdafé 2020 verði nýtt til uppbyggingar á Hreystisvæði sem nýtist ungmennum og fullorðnum. Með hreystisvæði er átt við svæði eða áningarstað við gönguleið þar sem komið er fyrir búnaði sem nýtist til fjölbreyttrar líkamsræktar og þrekæfinga. Þannig gefst vegfarendum kostur á að bæta styrkjandi æfingum við þolaukandi áhrif göngutúrs.
Það er tillaga hverfisráðsins að Hreystisvæðið verði staðsett meðfram gönguleið sem liggur frá Stórholti og inn Dagverðardal aftan við og til hliðar við snjóflóðavarnargarðinn samkvæmt því sem fram kemur í erindi þess til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.
Samkvæmt skipulagsuppdrætti gildandi deiliskipulags í hlíðum Kubba aftan við Holtahverfi er gert ráð fyrir trönuleiksvæði, sparkvelli og púttvelli ásamt nokkrum áningarstöðum. Hverfisráð óskar eftir að kannað verði hvort hugmynd að hreystigarði falli að gildandi skipulagi. Væri hreystigarðurinn þá fyrsti liður í uppbyggingu á útivistar og afþreyingarsvæði á þessum stað.
Hverfisráðið leggur sérstaka áherslu á að framkvæmdarfé ársins 2020 verði nýtt á árinu.
Þá gerir hverfisráðið alvarlegar athugasemdir við slælega framgöngu bæjarins á síðustu árum. Rakin eru dæmi um verkefni sem vinna átti að allt frá 2015, svo sem í Tunguhverfi en með slælegum árangri. Hverfisráð harmar hve seint og illa hefur gengið að koma þar upp viðunandi aðstöðu. „Nú er mikil uppbygging í hverfinu og framundan fjölgun íbúa og þörf fyrir leikvöll því vaxandi. Óskar hverfisráð eftir að leikvöllur Tunguhverfis verði kláraður 2020 í samræmi við samkomulag“ segir í bréfi hverfisráðsins.