Í gær urðu þau tímamót að tekinn var kalkþörungur af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi. Um var að ræða tilraunadælingu við Æðey. Að sögn Halldórs Halldórssonar, forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins ehf gekk námið vel. Siglt var með farminn til Bíldudals til rannsóknar. Að því búni verður farið í rannsóknardælingu við Kaldalón í samræmi við leyfi Orkustofnunar. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 600 rúmmetra kalkþörunganámi í tilraunaskyni á þessum tveimur stöðum .
„Niðurstöður verða settar saman í skýrslu til Orkustofnunar og að sjálfsögðu okkar fyrirtækis því þær eru nauðsynlegur liður í því að vita sem mest um efnið áður en verksmiðja verður reist í Súðavík“ segir Halldór.
Umhverfismati er lokið og umsókn okkar um nýtingarleyfi er hjá Orkustofnun. Sótt er um leyfi til þess að vinna 120 þúsund rúmmetra á ári í nýrri verksmiðu sem verður reist í Súðavík. Það er Orkustofnun sem veitir leyfið. Búist er við að nýtingarleyfið verði til 30 ára. Halldór segir að miklar kalkþörunganámur séu í Ísafjarðardjúpi. Áætlað er að það séu um 100 milljónir rúmmetrar, sem er um 30 sinnum meira en það sem verksmiðjan mun vinna á 30 árum.
Bragi Þór Thoroddsen , sveitarstjóri Súðavíkurhrepps staðfesti í samtali við Bæjarins besta að Skipulagsstofnun hefði staðfest breytingar á aðalskipulagi Súðavíkurhrepps vegna kalkþörungaverksmiðjunnar og yrðu þær birtar næstu daga í lögbirtingarblaðinu. Þar með væri hægt að hefjast handa við undirbúningsframkvæmdir vegna verksmiðjunnar. Bragi bjóst við því að uppdæling vegna landfyllingar á Langeyrinni yrði í haust. Þá væri fjárveiting ríkisins vegna stálþils og hafnarkants komið í hafnaáætlun og inn á fjárlög 2021. Að öllu forfallalausu taldi Bragi að hægt yrði að byrja byggingarframkvæmdir við verksmiðjuna í lok næsta árs.