Hrafnseyri: 15 nemendur úrskrifaður frá Háskólasetrinu

Háskólasetur Vestfjarða útskrifaði  í gær 15 nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun. Að venju fór útskriftin fram á Hrafnseyri og var felld inn í almenn hátíðahöld þjóðhátíðardagsins sem fram fóru í vestfirsku blíðviðri undir stjórn Valdimars Hreiðarssonar.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri ávarpaði nemendur og Peter Weiss forstöðumaður Háskólasetursins  stjórnaði afhendingu skírteina. Alls voru 15 nemendur brautskráðir og þar af voru 5 viðstaddir.

Peter Weiss sagði í samtali við Bæjarins besta að aðsókn virtist ætla að verða  góð fyrir næsta skólaár og bjóst hann við að 25 – 30 nemendur myndu stunda nám við tvær brautir meistaranáms haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði.

Tríóið Jóngunnar Briering Margeirsson, Dagný Arnalds og Rúna Esradóttir sá um tónlistarflutning  við góðar undirtektir.  Guðbergur Bergsson, rithöfundur flutti hátíðarræðuna og var beinskeyttur að venju. Fjallaði hann um farsóttina og hugsanlegar afleiðingar hennar og lýsti fyrri drepsóttum sem yfir Evrópu gengu fyrir öldum og miklum umbreytingum á þjóðfélögin sem stundum fylgdu í kjölfarið.

Opnuð var  myndlistarsýning sumarsins eftir Margréti Jónsdóttur, leirlistarkonu frá Akureyri. Kynnir  á hátíðinni var prófessor Guðmundur Hálfdanarson.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Jóngunnar Briering Margeirsson, Dagný Arnalds og Rúna Esradóttir
Verk eftir leirlistarkonuna Margréti Jónsdóttur frá Akureyri.
Guðbergur Bergsson rithöfundur.
Hátíðin var vel sótt og mátti sjá kunnugleg andlit.

 

DEILA