Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða ákvað að flytja skrifstofuna sína á Patreksfjörð í eina viku og verður hún staðsett í Ólafshúsi.
Háskólasetrið er iðulega fyrsti snertiflötur og tengiliður rannsóknarfólks, nemenda og kennara af öðrum svæðum sem vilja starfa á Vestfjörðum í lengri eða skemmri tíma.
Það er því mikilvægt að forstöðumaður Háskólaseturs geti kynnt tækifæri á öllum Vestfjörðum og er þessi dvöl m.a. hugsuð í þeim tilgangi.
Undanfarin ár hefur Háskólasetrið staðið fyrir námskeiðum annað hvert ár í nýsköpun í sjávareldi á Tálknafirði í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Þessum námskeiðum er ætlað að gefa nemendum og kennurum tækifæri til að kynnast sunnanverðum Vestfjörðum í nokkra daga í senn.
Vegna COVID-19 neyddist Háskólasetrið hinsvegar til að færa þetta námskeið alfarið í netkennslu og sátu því allir heima, bæði nemendur og kennarar. Þar sem þetta námskeið féll niður að þessu sinni í venjulegri mynd þótti enn brýnna að finna aðrar leiðir til að halda tengslunum og styrkja þau á sunnanverðum Vestfjörðum.
Á aðalfundi Háskólaseturs árið 2018 var opnað fyrir þann möguleika að gefa nýjum fyrirtækjum og stofnunum tækifæri á að gerast aðilar að Háskólasetri Vestfjarða og breikka þannig hópinn sem stóð að stofnun setursins fyrir fimmtán árum.
Forstöðumaður Háskólaseturs mun nýta tækifærið í þessari ferð og kynna þennan möguleika fyrir fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu.
Þeir sem vilja hitta Peter Weiss, forstöðumann Háskólaseturs, á sunnanverðum Vestfjörðum, mega gjarnan senda netpóst á weiss@uw.is, eða hringja í 869 3045.