Edinborgarhúsið: Helgi Björnsson með tónleika 19. júní

Nú er farið að lifna aftur yfir Edinborgarhúsinu eftir COVID-19. Fyrsti stóri viðburðurinn er sannarlega COVID tengdur því Helgi Björnsson ætlar að halda tónleika í Edinborgarhúsinu sem er framhald af Heima með Helga dagskránni sem hann var með í sjónvarpi. Tónleikarnir fara fram þann 19. júní næstkomandi.

Helgi og Reiðmennirnir ætla að fara annesja á milli og hitta glaðværa landsmenn og þakka fyrir ótrúlegar viðtökur á síðustu misserum. Um síðustu helgi skemmti Helgi gestum í Hlégarði þrjú kvöld í röð en þar verða þeir einnig um þessa helgi. Uppselt var á alla tónleikanna og mikill áhugi á miðunum um helgina sem nýlega fóru í sölu

Þegar leik lýkur í Hlégarði verða hattarnir settir upp, hnakkarnir á kláranna og þeyst af stað um landið. Fara þeir félagar á Húsavík, Akureyri og Siglufjörð daganna 10. til 13. júní. Næsta stopp er Ísafjörður 19. júní. Þá er það austurlandið, Eskifjörður, Borgarfjörður Eystri, Egilsstaðir og Vopnafjörður 25-28 júní.

“Þetta er nú bara tilkomið vegna þess hversu hrærður ég er yfir öllum þessum ótrúlegu viðbrögðum sem við fengum við þættinum okkar í skemmtanabanninu. Það er ekki hægt að taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Fyrir bannið vorum við með dagskrá á prjónunum í Háskólabíó sem við urðum að færa fram í ágúst en það er allt saman uppselt.

Okkur langaði því að fara til þeirra sem búa lengst frá borginni og eiga ekki auðvelt með að fara í það ferðalag. Þannig að við komum bara til þeirra og gleðjum og gefum.” Segir Helgi um tilkomu þessarar tónleikaferðar. “Þetta er umfangsmikið ferðalag, við erum að fara með alla hljómsveitina og hluta leikmyndarinnar og ætlum að skapa þessa stemningu á öllum stöðunum, það verða þegar upp er staðið fjórtán tónleikar á þrjátíu dögum en mikið rosalega hlakkar okkur til að sjá framan í sólbrúna íslendinga, skælbrosandi og glaða bætir Helgi við brosandi.

DEILA