Drangsnes: íhuga lækkun hitakostnaðar vegna covid 19

Samkomuhúsið á Drangsnesi og íþróttasvæðið. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps fékk erindi frá þremur fyrirtækjum í ferðaþjónustu í þorpinu um lækkun kyndikostnaðar vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Það voru Gistiþjónusta Sunnu, Gistiheimili Malarhorns og Hótel Laugarhóll sem óskuðu eftir því að kyndikostnaður fyrir 2020 yrði endurskoðaður starfsárið 2020. Finnur Ólafsson, oddviti sagði við samtali við Bæjarins besta að tekið hafi verið vel í erindið en frestað því til næsta fundar. Verður athugað hver áhrifin verða á afkomu hitaveitunnar ef til lækkunar kemur áður en erindið verður afgreitt.

Sveitarfélagið reisti sjálft hitaveitu fyrir eigin reikning þegar Orkubú Vestfjarða  hafði gefið frá sér hitaveitugerðina þar sem hún þótti ekki arðvænleg.

Ærslabelgur á leiðinni

Yngri kynslóðin á von á ærslabelg á næstu vikum. Ungmennafélagi Neisti hefur fest kaup á ærslabelg og hefur sveitarfélagið tekið að sér að koma honum upp. Verður ærslabelgurinn neðan við samkomuhúsið Baldur og við athafnasvæði íþróttafélagsins. Finnur átti von á því að uppsetningin yrði í byrjun næsta mánaðar.

DEILA