ASÍ krefst hækkunar atvinnuleysisbóta

Alþýðusambandið hefur um nokkurra missera skeið lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni.

Alþýðusambandið hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að atvinnuleysisbætur verði þegar í stað hækkaðar og tekjutengda tímabilið lengt.

Nú eru grunnbætur úr atvinnuleysistryggingasjóði m.v. fullt starf kr. 289.510 á mánuði (auk þess sem greidd er lág fjárhæð með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára).

Þá eru tekjutengdar bætur að hámarki kr. 456.404 á mánuði, en þó aldrei hærri en 70% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru lengst greiddar í þrjá mánuði, en þó ekki fyrstu tvær vikur í atvinnuleysi.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandi til breytingar m.v. núgildandi lög og upphæðir atvinnuleysisbóta. Um er að ræða hóflegar breytingar sem eru einfaldar og hægt er að hrinda strax í framkvæmd.

Tillaga Alþýðusambandsins er eftirfarandi:

Grunnatvinnuleysisbætur verði sem svarar 95% af tekjutryggingu m.v. fullt starf. Sú fjárhæð er í dag kr. 318.250 (þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð). Þá verði greiðsla með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára hlutfallslega sú sama og í dag.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nemi sem næst 70% af meðaltali heildarlauna á vinnumarkaði. Sú fjárhæð er í dag kr. 529.381.
Þá verði dregið úr tekjutengingu þannig að tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdra bætur. Sú fjárhæð er í dag kr. 335.000.

Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið úr þremur mánuðum að hámarki í sex mánuði.

DEILA