Áhöfnin á TF-EIR fann mann sem leitað var að í Skálavík

Hitamyndavélin um borð í TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, skipti sköpum þegar áhöfn þyrlunnar fann göngumann í sjálfheldu í Kroppstaðahorni í Skálavík í morgun.

Björgunarsveitir, lögregla, áhöfnin á varðskipinu Þór auk þyrlusveitarinnar höfðu leitað mannsins frá því í gærkvöld þegar hann fannst með myndavélinni. Erfitt reyndist að sjá manninn með berum augum.

Lögreglan á Vestfjörðum óskaði eftir aðkomu áhafnar varðskipsins Þórs, sem var statt í 28 sjómílna fjarlægð frá Skálavík, og þyrlusveitar laust eftir klukkan 23 í gærkvöld. Þyrlan hóf leit á svæðinu klukkan 00:45 og varðskipið Þór sigldi grunnt meðfram ströndinni frá Galtavita og alla leið að Bolungarvík og svo til baka í Skálavík þar sem leitað var í hlíðinni.

Laust fyrir klukkan 6:00 fann áhöfnin á TF-EIR manninn í klettum í Kroppstaðahorni. Hann var hífður upp í þyrluna og flogið með hann á Ísafjörð. Meðfylgjandi myndband sýnir hvernig björgunaraðgerðum var háttað í Skálavík í morgun.

https://youtu.be/hV6QU3HgVbk

DEILA