Í fyrstu úthlutun Nýsköpunarsjóðs námsmanna fyrir árið 2020 hljóta 74 fjölbreytt verkefni styrki sem alls nema um 106 milljónum kr. Tæplega 190 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Verkefnin sem hljóta styrki tengjast mennta- og vísindastofnunum um land allt.
„Breiddin í þessum spennandi verkefnum er til marks um fjölbreytileika íslenska menntakerfisins og nýsköpunarkraftinn meðal stúdenta. Verkefni sem komast á laggirnar fyrir tilstuðlan Nýsköpunarsjóðs námsmanna geta blómstrað og breyst í stærri og viðameiri tækifæri fyrir námsmenn, fyrirtæki og stofnanir. Þannig er sjóðurinn mikilvæg brú fyrir atvinnulífið og vísindasamfélagið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Markmið Nýsköpunarsjóðs námsmanna er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknaverkefni.
Í ljósi aðstæða nú vegna COVID-19 er ráðgerð aukaúthlutun úr sjóðnum sem nemur alls 300 milljónum kr. vegna verkefna sem vinna á í sumar.
Umsóknafrestur vegna þeirrar úthlutunar er 8. maí nk.