Fyrir hönd Norðurlandanna allra sendu mennta- og menningarmálaráðherrar landanna á dögunum inn sameiginlega tilnefningu til UNESCO um að smíði og notkun hefðbundinna norrænna trébáta, svokallaðra súðbyrðinga, komist á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.
Verði tilnefningin samþykkt verður það staðfesting alþjóðasamfélagsins á að þennan menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir.
Skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkynsins er hliðstæð við hina þekktari Heimsminjaskrá UNESCO. Önnur skráin heldur utan um heimsminjastaði en hin um lifandi hefðir og menningarerfðir og svokallaðan óáþreifanlegan menningararf.
Hinn dæmigerði norræni trébátur — súðbyrðingurinn — hefur fylgt Norðurlandabúum um árþúsundir og greitt þeim leið um hafið. Súðbyrðingarnir voru farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna. Þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar – og á þeim var dregin björg í bú. Smíði þessara báta byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.
Um það bil 200 fagaðilar, söfn og félagssamtök á Norðurlöndunum styðja tilnefninguna.