Þegar þetta er skrifað að kveldi annars maí eru margir grásleppubátar að sigla í land með net sín vegna reglugerðar sem sjávarútvegsráðherra undirritaði um stöðvun grásleppuveiða.
Gríðarlega góð veiði hefur verið hjá bátunum, svo mikil að elstu menn muna vart annað eins. Hins vegar er kvótinn búinn, hin heilaga tala Hafró. Sá dagafjöldi sem ráðherra gaf út, 44 dagar á hvern bát eru fullnýttir hjá nokkrum (innan við 10%), aðrir áttu einhverja daga eftir, margir voru nýbyrjaðir og enn aðrir ekki komnir til veiða.
Menn spyrja, af hverju var ekki gripið inn í þegar sást í hvað stefndi? Hvers vegna eru menn ekki tilbúnir til að endurmeta veiðiráðgjöfina? Af hverju má ekki fara fram úr ráðgjöf og nýta óveiddan kvóta síðustu ára? Ef svarið við þessum spurningum er ótti við að missa hina svokölluðu MSC vottun, þá er sjálfsögð krafa að veiðiráðgjöfin verði betur grunduð en nú er. Það liggur fyrir að markaður er fyrir meira hráefni.
Nú segir ráðherra að ef frumvarp hans um að kvótasetja grásleppu á báta miðað við aflareynslu einhverja ára á undan væri orðið að lögum væri þessi staða ekki uppi. Það er í sjálfu sér rétt hjá ráðherranum, en það má ekki gleyma því að það eru samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins; Framsóknarflokkur og Vinstri-grænir, sem hafa stoppað málið, með formann atvinnuveganefndar í broddi fylkingar.
Frumvarp ráðherra var ekki fullkomið, en það hefði verið lítið mál (að mati undirritaðra) að sníða af því helstu vankantana í meðförum þingsins og atvinnuveganefndar. Atriði sem hefðu komið til skoðunar væru meðal annars; stærð báta og það að aflahlutdeild á hvern bát/leyfi verði ekki hærri en ákveðið hlutfall eða tonnafjöldi, netafjöldi og mögulegar svæðaskiptingar.
Frumvarpið, sem ráðherra kynnti í júlí 2019, situr fast hjá ríkisstjórninni, ríkisstjórn hinnar breiðu skírskotunnar. Þingflokkar Vinstri grænna og Framsóknar stoppuðu að mælt yrði fyrir frumvarpinu. Það er því alveg ljóst að ábyrgðin á núverandi stöðu liggur ekki bara hjá ráðherra sjávarútvegsmála, þó að framkvæmd stöðvunarinnar sé auðvitað kapítuli út af fyrir sig, heldur líka hjá samstarfsaðilunum í ríkisstjórn, fulltrúum Framsóknarflokks og Vinstri-grænna.
Viðkoma og vöxtur grásleppu er ekki mikið rannsökuð og vitneskja um stofnstærð því takmörkuð. Árið 2012 var ákveðið að Hafró myndi gefa út stofnstærðarmat á grásleppu og ráðgjöf til veiða hvers árs. Síðan hefur veiði á grásleppu í troll á „togara ralli“ verið notuð sem mæling og ráðgjöf Hafró grundvölluð á þeim upplýsingum. Þessa aðferð hafa margir gagnrýnt, því hún sýni alls ekki rétta mynd af ástandi stofnsins.
Eins og tekið var fram hér að ofan voru margir bátar ný byrjaðir eða ekki komnir til veiða, til dæmis við Faxaflóa, á Vestfjörðum og víða á norður og austurlandi. Einhverjir höfðu nýlega fjárfest í bátum og veiðafærum og sjá því fram á gjaldþrot vegna þessarar stöðu. Þetta er grafalverleg staða fyrir þá sem ráðgerðu að færa björg í bú með þessum hætti. Það hlýtur að liggja í augum uppi að leita allra leiða til að viðhalda atvinnustarfsemi og verðmætasköpun á þessum tímum þegar viðbrögð við covid-19 heimsfaraldrinum eru að leggja efnahagskerfi heimsins á hliðina.
Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson
Höfundar eru þingmenn Miðflokksins í NV-kjördæmi