Arnarlax ehf. hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.
Frummatsskýrslan liggur frammi á á Safnahúsinu á Ísafirði hjá Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni. Einnig er hægt að skoða skýrsluna á vef Skipulagsstofnunar. Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir fyrir 26 júní.
Í skýrslunni, sem unnin hefur verið af Verkís segir að áhrif 10.000 [tonna] ársframleiðslu Arnarlax á laxi í Ísafjarðardjúpi með 10.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma eru metin óveruleg fyrir ástand sjávar og svifsamfélag og á nytjastofna sjávar og spendýr, óveruleg til nokkuð neikvæð fyrir botndýralíf, ásýnd og haf- og strandnýtingu og óveruleg til nokkuð jákvæð fyrir fugla.
Þá segir einnig í skýrslunni að talið sé ósennilegt að fyrirhugað eldi á frjóum laxi skaði villta laxastofna með tilliti til hættu á erfðablöndun umfram það sem forsendur áhættumats erfðablöndunar setur.
Með hliðsjón af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og mótvægisaðgerðum eru áhrif 10.000 tonna eldis á frjóum laxi metin óveruleg til nokkuð neikvæð á erfðaefni villtra laxfiska.
Áhrifin verði staðbundin og líklega afturkræf miðað við að mótvægisaðgerðir leiði til þess að innblöndun verði lítil.
Eldi á 10.000 tonnum af ófrjóum laxi er ekki líklegt til að hafa áhrif á erfðir náttúrulegra laxastofna í Ísafjarðardjúpi og áhrif því metin í mesta lagi óveruleg á náttúrulega laxastofna í Ísafjarðardjúpi