Vesturbyggð tekur þátt í Stóra plokkdeginum sem er haldinn er laugardaginn 25. apríl.
Settar verða upp þrjár stöðvar á Patreksfirði og tvær stöðvar á Bíldudal þar sem hægt verður að nálgast ruslapoka og einnota hanska (hvetjum fólk til að koma sjálft með vinnuvetlinga, sér til þæginda og yndisauka).
Þessar stöðvar verða aðgengilegar á milli 12:00 og 13:00. Á stöðvunum er stjórnandi sem leiðbeinir fólki um svæði sem eru hentug til plokks þannig að við komumst yfir stórt svæði og svo þægilegt verði fyrir okkur að virða 2m regluna. Stöðvarnar eru:
Patreksfjörður:
• Bílastæðið við Vatneyrarvöll
• Bílastæðið við Patreksfjarðarkirkju
• Bílastæðið við Fosshótel
Bíldudalur:
• Bílastæðið við blokkina
• Túnið við Baldurshaga
Eftir klukkan 15:00 verða bílar á ferðinni til að sækja afraksturinn. Því er mikilvægt að loka fyrir pokana og koma þeim fyrir á sniðugum stöðum þar sem auðvelt er nálgast þá á bíl. Stærra rusl sem ekki kemst í poka má leggja við hliðina. Allt rusl verður vigtað svo það liggi fyrir hversu mikið rusl var týnt. Þar sem setjum við markið og reiknum að sjálfsögðu með því að allir kveiki á keppnisskapinu til að hafa það sem mest og verði svo jafnframt ákveðin í að bæta metið að ári!
Í ár er sjónum sérstaklega beint að umhverfi í kring um heilbrigðisstofnanir til að sýna starfsfólki stofnananna þakklæti í verki. Að plokka gefur fólki gott tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Þetta er tilvalið verkefni í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða fjarlægðartakmörk. Plokk fegrar umhverfi okkar og náttúru en víða er mikið af plasti og rusli eftir stormasaman vetur.
Vesturbyggð óskar að sjálfsögðu eftir þátttöku frá öllum sem vettlingi geta valdið en sérstök áskorun er til þátttöku frá:
• Forystufólki sveitarfélagsins
• Lionsklúbbi Patreksfjarðar
• Kvennfélögunum
• Slysavarnadeildunum
• Íþróttafélögunum
• Börnum og ungmennum
PLOKKTRIXIN 8:
1. Finna eða fá útvegað svæði til að plokka á og hvetja alla fjölskyldumeðlimi til þátttöku
2. Tengja sig inn á stofnaðan viðburð
3. Útvega sér ruslapoka og hanska hjá stjórnanda, ef þeir eru ekki til á heimilinu.
4. Klæða sig eftir aðstæðum og veðri.
5. Virða samkomubann og gæta fjarlægðar.
6. Koma afrakstrinu upp á veg þar sem auðvelt verður að sækja hann.
7. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta hættulega hluti vera, en jafnramt að tilkynna það foreldrum eða öðrum sem geta hjálpað.
8. Vera dugleg að nota samfélagsmiðla – setja inn myndir á Facebook og Instagram með myllumerkjunum #vesturbyggdplokkar2020 og #plokk2020 þannig að til verði skemmtilegt safn af plokkmyndum.