Sveitarstjórn Súðavíkur ræddi væntanlega kalkþörungaversmiðju á síðasta fundi sínum og bókað var að sveitarstjórnin legði áherslu á að fá samning við Íslenska kalkþörungafélagið ehf um uppbyggingu verskmiðjunnar í Álftafirði, um tímamörk verkefnisins og áætlun um það hvenær framleiðsla gæti hafist.
Sveitarstjóra var falið að virkja ráðgjafarstofu um framhald verkefnisins eins og bókað er.
Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf segir að félagið hafi verið fyrr sitt leyti tilbúið í 3 -4 ár. En stofnanir ríkisins hafi tekið langan tíma til að afgreiða erindi félagsins svo sem um umhverfismat.
Það hefur loksins verið auglýst og segir Halldór að næsta skref sé að senda inn umsókn til Orkustofnunar um leyfi til námavinnslu á þörungum í Djúpinu. Að því leyfi fengnu þarf að afla hjá Umhverfisstofnun leyfis til starfrækslu verksmiðjunnar.
Halldór vildi ekki spá neinu fyrir um það hvenær leyfin kæmu til með að liggja fyrir en sagði að það ætti ekki að taka langan tíma.
Í byrjun ársins afgreiddi sveitarstjórn Súðavíkurhrepps nauðsynlegar breytingar á deiliskipulagi vegna verksmiðjunnar og hafnarframkvæmda henni tengdar.