Vegna covid-19 er brýnna en nokkru sinni að stjórnvöld geri allt sem hægt er til að efla efnahag þjóðarinnar og sporna gegn atvinnuleysi. Til þess er m.a. nauðsynlegt að heimila aukna nýtingu á auðlindum þjóðarinnar. Hér er fjallað um fiskinn í sjónum.
4. maí næstkomandi hefjast strandveiðar smábáta – handfæraveiðar. Gera má ráð fyrir að
hátt í sjö hundruð smábátaeigendur muni stunda veiðarnar í ár. Til þeirra eru ætluð 11.100 tonn af óslægðum botnfiski. Að óbreyttu er hverjum og einum bát heimilt að veiða í 48 daga, skipt jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.
Nýting þeirra er takmörkuð við fyrstu fjóra virka daga vikunnar. Hver veiðiferð má að hámarki vara í 14 klukkustundir og aflinn má ekki fara umfram 774 kg af óslægðum þorski.
Sumarið 2019 voru 623 bátar á strandveiðum. Afli þeirra varð rúm 10 þúsund tonn og sjóferðirnar um 16 þúsund. Áhrif þessa fyrir hinar dreifðu byggðir eru gríðarleg, til dæmis fyrir þjónustuaðila, fiskvinnslur og mannlíf.
Aflaverðmæti þrír milljarðar og útflutningstekjur tvöföld sú upphæð. Nánast allur afli strandveiðibáta er boðinn upp og seldur gegnum fiskmarkaði.
Landssamband smábátaeigenda hefur óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða – ákvæði um strandveiðar
til að koma til móts við afleiðingar sem covid-19 kann að valda. Tillagan felur í sér að heimilt verði að nýta þá 48 daga sem ætlaðir eru til strandveiða á 12 mánaða tímabili í
stað fjögurra án takmarkana á því hvaða daga vikunnar veiðarnar væru stundaðar.
LS hefur á undanförnum dögum fengið stuðning einstakra bæjarráða og bæjarstjórna við mikilvægi þess að gera breytingar á fyrirkomulagi strandveiða. Sérstakt fagnaðarefni er að sjávarútvegsráðherra hefur nú tilkynnt að unnið sé að gerð lagafrumvarps til að
bregðast við áhrifum covid-19 á þá sem stunda strandveiðar.
Mikilvægt er að frumvarp sem ráðherra mun leggja fyrir ríkisstjórn taki sem mest mið af tillögum LS og fái flýtiafgreiðslu Alþingis. Málefni sem eflir atvinnu, eykur tekjur ríkissjóðs og hinna dreifðu byggða og eykur gjaldeyristekjur án þess að neinu sé fórnað.
Örn Pálsson.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda