Matvælastofnun: framlengir auglýsingu eftir dýralækni á Vestfjörðum

Matvælastofnun hefur framlengt til 23. apríl auglýsingu eftir sjálfstætt starfandi dýralækni á þjónustusvæði 3 sem er Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur. Ein staðaruppbót er greidd.

Dýralækninum er ætlað að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins.  Markmiðið er að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr.

Í auglýsingunni segir að gerðir verði tveir samningar, annars vegar þjónustusamningur og hins vegar verkkaupasamningur, hvoru tveggja eru verktakasamningar við Matvælastofnun. Almennri dýralæknaþjónustu tilheyrir einnig að standa vaktir kvöld, nætur og helgidaga, en að tilteknu hámarki. Nýtt og breytt fyrirkomulag felur í sér möguleika til hefðbundinna afleysinga.

Núverandi dýralæknir Sigríður Inga Sigurjónsdóttir hefur sagt upp samningi sínum og lætur af störfum um næstu mánaðamót. Helsta ágreiningsefnið hefur verið að erfitt er að fá afleysingu og er dýralæknirinn stöðugt á vakt.

DEILA