Hagnaður stórútgerðarinnar af Makrílveiðum 2011-2018

Í kjölfar málatilbúnaðar sem óþarfi er að rekja hér kom upp sú staða að nokkrar stórútgerðir töldu fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafa farið á svig við lög og reglur við úthlutun á rétti til að veiða makríl.  Hér er um að ræða útgerðarfyrirtækin Eskju, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnsluna, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðina.  Makríll hafði lítið veiðst innan íslensku efnahagslögsögunnar uns hann skaut upp „kollinum“ árið 2006.  Árið 2009 ákváðu íslensk yfirvöld að hámark á leyfilegum makrílafla íslenskra skipa innan og utan efnahagslögunnar árið 2010 skyldi 130.000 tonn.  Aflanum var þá ekki skipt milli skipa.  Í lok mars 2010 setur sjávarútvegsráðherra reglugerð þar sem skip með veiðireynslu halda sínum 130.000 tonnum samtímis sem aflanum er skipt milli þeirra.  Aðrir aðilar fá síðan heimild til að veiða 18.000 tonn.  Þannig héldu skipin með veiðireynslu óbreyttu magni fyrir árið 2010. „Viðbótin“ sem ákvörðuð var gekk öll til annarra.  Veiðireynsluskipin héldu þannig 87% af endanlega úthlutuðum kvóta.   Hefur sú skipan haldist tiltölulega óbreytt síðan, sjá t.d. MS ritgerð Kristins H. Gunnarssonar (https://skemman.is/handle/1946/24599).  Í kjölfar hæstaréttardóms þar sem sett er út á aðferðafræði við setningu reglugerðarinnar í mars 2010 hafa „veiðireynsluútgerðirnar“ sett fram kröfu um bætur vegna þeirra 13% kvótans sem þeim ekki var úthlutað.  Reiknað til verðlags dagsins í dag hljóðar samanlögð krafa félaganna upp á 10,3 milljarða króna.

 

Virði úthlutaðs makrílkílós eftir útgerðum

Með hliðsjón af upplýsingum sem fram koma í svari sjávarútvegsráðherra til Þorgerðar K Gunnarsdóttur (https://www.althingi.is/altext/150/s/1230.html) er hægt að reikna út hversu verðmætt hvert úthlutað kíló makríls er fyrir hverja útgerð fyrir sig.  Sjá töflu 1.  Það vekur athygli hversu mikill breytileiki er í tölunum bæði eftir árum og milli fyrirtækja.  Það gæti bent til þess að endurskoðunarskrifstofa sú sem vann kröfuna fyrir fyrirtækin hafi ekki endilega beitt sambærilegum aðferðum við að vinna tölur úr bókhaldi fyrirtækjanna.  En það getur líka verið að framlegð Ísfélags Vestmannaeyja og Loðnuvinnslan í þessum veiðum séu að jafnaði 100 til 200% meiri en lökustu og næst lökustu útgerðanna.  Hvor tilgátan er rétt er ekki hægt að sannreyna því sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki gert grundvöll kröfugerðarinnar opinbera.

 

Hagnaður útgerða af 87% sem þau fengu úthlutað gegn „vægu gjaldi“

Tölurnar í svari ráðuneytisins má svo nota til að reikna út hagnað hverrar útgerðar fyrir sig af þeim kvóta sem þau fengu úthlutað gegn vægri greiðslu veiðgjalds.  Þessi hagnaður kemur fram í töflu 2.  Samtals nemur hagnaður þessara útgerða 55,5 milljörðum króna á verðlagi í mars 2020.  Þennan hagnað hafa útgerðirnar hlotið á grundvelli aflaheimilda sem þeim var úthlutað af auðlind sem skilgreind er sem þjóðareign!  Verði gengið að kröfum útgerðanna hefur þessi umframhagnaður aukist í 65,8 milljarða króna.  Sumir hafa nefnt orðið „græðgi“ í sömu andrá.  Ég eftirlæt lesandanum að ákvarða hvort það sé réttmæt nafngift.

 

 

Tafla 1:  Verðmæti úthlutaðs makrílkílós eftir útgerðum og eftir árum, verðlag hvers árs.

2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Eskja 97,95 51,26 66,88 61,20 43,58 62,21 77,90 96,66
Gjögur 48,72 30,73 39,87 3,86 23,27 29,62 29,33 50,42
Huginn 71,56 39,46 48,87 27,04 20,45 40,97 38,15 53,85
Ísf. Vestm 114,66 78,49 106,00 101,64 73,87 73,48 76,15 91,42
Loðnuv 97,58 107,40 47,87 107,47 88,92 87,20 66,04 88,33
Skinney Þinganes 71,38 63,28 50,03 73,43 51,68 63,31 65,68 90,07
Vinnslust 89,09 60,49 64,27 93,28 32,96 63,57 54,77 90,81
Meðaltal 84,42 61,59 60,54 66,85 47,82 60,05 58,29 80,22
Staðalfrávik 21,99 25,62 22,19 39,13 25,73 19,30 18,60 19,38

 

 

Tafla 2: Hagnaður hvers útgerðarfyrirtækis fyrir sig af úthlutuðum afla

 

2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
Eskja     3.258     1.385     1.426     1.714     1.456     1.863     2.290     2.168   15.560
Gjögur        817        280        285          38        253        343        223        294     2.532
Huginn     1.600        704        686        498        468        847        768        832     6.404
Ísf. Vestm     1.474        866        921     1.171     1.031        856        869        789     7.977
Loðnuv     1.255     1.185        416     1.239     1.241     1.015        754        762     7.866
Skinney Þinganes        817        937        647     1.367     1.040     1.147        861        951     7.767
Vinnslust        977        856        647     1.163        639     1.089        890     1.133     7.394
Samtals   10.197     6.213     5.029     7.190     6.128     7.161     6.655     6.928   55.501

 

Þórólfur Matthíasson

Höf­undur er pró­­fessor í hag­fræði við Háskóla Íslands. 

DEILA