Bæjarins besta sendir lesendum sínum gleðilega páska.
Það eru svo sannarlega óvenjulegar aðstæður um þessa páskahátíð og fyrirsjáanlegt að svo verði áfram næstu mánuði. Við er að glíma vágest sem kemst gegnum mannsins varnir og getur verið illviðráðanlegur.
Önnur ráð eru ekki betri en þau að fylgja bestu manna og kvenna yfirsýn og sýna æðruleysi og þrautsegju. Þau ráð munu að lokum duga til þess að daglegt líf kemst í svipaðar skorður og áður var. Vísindin og tæknin munu finna svörin og vonandi fyrr en seinna. Þessi plága verður yfirbuguð eins og allar aðrar á undan henni.
Það besta sem við gerum er að nota faraldurinn til þess íhuga, og eftir atvikum að endurmeta, grunngildin í mannlegu samfélagi.
Hver atburður, jafnvel óumbeðinn, gefur tækifæri til upprisu gamalla eða nýrra gilda, sem gera mannlegt samfélag betra. Það tækifæri væri gott að nýta.
-k