Er hægt að vera jákvæður?

Mig langar óskaplega mikið til að vera jákvæður og tala um samtakamátt í sveitum og þorpum, en þegar kemur að okkar allra mikilvægustu þjónustu þá get ég það ekki.
Heilbrigðiskerfið úti á landi er fjársvelt, undirmannað og afskipt. Þetta er þekkt staðreynd sem fróðari menn en ég hafa bent á svo árum skiptir.

Starfsfólkið í heilbrigðisþjónustunni á Vestfjörðum er einstakt. Það sannast aftur og aftur og aftur. Sama má segja um þorpsálina sem blossar upp þegar mest á reynir og sameinar kraftana. En eins stórkostlegt og það er þá verðum við líka að hafa kjark til viðurkenna vanmátt og veikleika mikilvægrar nærþjónustu þegar álagið eykst.

Í vikunni söfnuðu Stöndum saman Vestfirðir 20 milljónum á nokkrum dögum fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Einstakt afrek og ólýsanlegur samtakamáttur, en við skulum ekkert fara í grafgötur með það hvaðan þessir peningar koma. Þeir koma úr vösum fólks sem þegar hefur greitt sinn skerf til kerfisins. Við erum búin að leggja okkar af mörkum, til jafns við aðra, svo veita megi þá þjónustu sem okkur hefur verið lofað. Samt er Vestfirðingum nauðugur einn sá kostur að rífa upp veskið og staðgreiða lækningatæki sem fagfólk fyrir vestan þarf nauðsynlega á að halda til að bjarga mannslífum á tímum farsóttar. Er það ásættanlegt? Og eigum við bara að yppta öxlum og segja: Einmitt, svona er þetta alltaf hér?

Nei, fjandakornið. Þetta á ekkert alltaf að vera svona. Við verðum að hætta að taka því sem einhverjum fasta að samneyslan umgangist íbúa fámennra landshluta eins og sveitarómaga. Afgangsstærð sem geti bara étið það sem út af stendur og brúkað drasl sem aðrir eru búnir að afskrifa og hættir að nota. En þannig er það nú samt. Í alvöru. Sérstaklega þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Hinn nöturlegi kjarni máls er að við smyrjum þjónustuna allt of þunnt. Ætlum að gera allt fyrir alla í öllum þorpum án þess að hafa til þess mannskap, fjármagn eða tækjakost. Þetta samþykkjum við ár eftir ár með puttana í eyrunum og lepp fyrir báðum. Sem samfélag. Neitum að horfast í augu við þá staðreynd að peningarnir sem við eyrnamerkjum þessari þjónustu, úr sameiginlegum sjóðum, duga ekki fyrir nema broti af henni. Samt höldum við áfram að leggja níðþunga klafa á herðar starfsfólks kerfisins sem á einhvern ótrúlegan hátt nær að halda skútunni á floti.

Hvernig væri að við hættum þessari vitleysu og göngumst við því að geta ekki veitt íbúunum alla þá heilbrigðisþjónustu sem við segjumst ætla að gera. Nú eða veljum hinn kostinn og tryggjum nægilegt fjármagn svo hægt sé að veita þjónustuna.
Burtu með þessar blekkingar.

Lexían er: Það er enginn að fara að krefjast úrbóta fyrir okkur ef við gerum það ekki sjálf. Hættum að rífast innbyrðis um það hvort 10% stöðugildi eigi að vera staðsett í þessu þorpinu eða hinu. Hættum að haga okkur eins og smáfuglar að bítast um brauðmola. Það skiptir ekki máli í stóra samhenginu. Það eina sem slíkar innbyrðis deilur gera er að draga athyglina frá því sem raunverulega skiptir máli. Fyllum lungun af lofti og krefjumst úrbóta á þeirri þjónustu sem ekkert okkar getur verið án en allir eiga rétt á.
Hættum að sætta okkur við brauðmola.

Guðmundur Gunnarsson

DEILA