Engin ný smit á Vestfjörðum – Íbúafundur um covid og tilslakanir yfirvalda klukkan 15 í dag.

Engin ný smit komu upp síðasta sólarhring hjá einstaklingum á Vestfjörðum.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Lögreglan á Vestfjörðum boða til upplýsingafundar um afléttingu samkomutakmarkana á norðanverðum Vestfjörðum. Fundurinn fer fram á Facebook-síðu heilbrigðisstofnunarinnar miðvikudaginn 29. apríl kl. 15:00.

Þar gefst íbúum á norðanverðum Vestfjörðum kostur á að hlýða á útskýringar aðgerðastjórnar almannavarna á Vestfjörðum á stöðunni og hvernig þeim höftum sem settar voru á, til að koma í veg fyrir frekara smit, verður aflétt í áföngum.

Alls hafa 101 einstaklingur verið greindir með Covid-19 í umdæminu og 56 þeirra náð bata. Í sóttkví eru nú 68 einstaklingar þar af 15 í svokallaðri sóttkví B.

Í sóttkví B felst að um er að ræða sérhæfða starfsmenn, sem að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, fá að sinna sínu starfi á afmörkuðum vinnustað sínum. Þeim er ekki heimilt að fara í verslanir eða ferðast í almenningssamgöngum, mega ekki hitta vini eða kunningja eða umgangast annað fólk.

DEILA