Dymbilvika eða kyrravika hefst pálmasunnudegi. Orðið dymbill vísar til trékólfs, sem menn settu stundum í kirkjuklukkur til að gera tón þeirri mýkri og lágværari. Kristnir menn minnast þess á pálmasunnudegi að Jesús kom ríðandi á asna inn í Jerúsalem og borgarbúar fögnuðu honum með því að veifa pálmagreinum og hrópa hósíanna. Þannig hefst vikan með gleðigöngu. En svo taka við aðrir dagar eins og skírdagur þar sem við minnumst heilagrar kvöldmáltíðar. Skírdegi fylgir svo dimmur dagur sorgar, föstudagurinn langi þegar við hugsum til krossfestingar Jesú Krists.
Komandi dymbilvika mun ekki verða lík neinni annarri dymbilviku, sem við höfum hingað til upplifað. Í fyrsta lagi mun nánast allt verða lokað, þar með taldar allar kirkjur landsins, enda ríkir núna samkomubann vegna plágunnar, sem gengur yfir heimsbyggðina. Á fundi landlæknis í gær vorum við öll hvött til að ferðast bara innan heimilins okkar. Var fólk hvatt til að fara ekki í sumarbúðstað um páskana, ekki aka eftir þjóðvegum landsins, ekki fara á fjöll. Nú skulu allir vera innadyra og heima hjá sér og fara varlega þegar þeir rísa úr rekkju og fara fram í eldhús til að hella sér upp á kaffi! Þá birtast fréttir um að skíðalyftum landsins hafi verið lokað vegna smithættu.
Þegar ég sagði konunni að ég ætlaði í Bónus að kaupa í matinn þá horfði hún á mig alvarlegum augum og sagði svo: „Þú manst eftir því að fara varlega. Spritta á þér hendurnar áður og eftir að þú ert búinn að vera með hendurnar á innkaupakerrunni.“ Síðan hugsaði konan sig um og bætti svo við: „Ætli það sé ekki best að þú verðir með latex-hanska þegar þú ferð í búðina. Andlitsgríma gæti líka komið sér vel!“
Við lifum á mjög alvarlegum tímum, sögulegum tímum þegar drepsótt gengur yfir heiminn. Fjöldi fólks er nú þegar dáinn, sérstaklega í þeim löndum þar sem pestin hefur náð að smita marga. Enginn skyldi tala af léttúð um þessa pest. Það er dauðans alvara að fá lungnabólgu og þótt maður kunni að lifa það af með hjálp góðra lækna þá er ekki víst að maður verði jafngóður aftur. Einkenni veirunnar eru þurr hósti, svo hiti, hausverkur, beinverkir og hálsbólga. Sumir hafa lýst þessu þannig að þeim hafi fundist þeir vera að kafna.
Líklega mun föstudagurinn langi tala með sérstökum hætti til okkar í ár. Aldrei fyrr hefur krossfesting, þar sem saklaus maður líður, talað jafn skýrt inn í heim okkar og nú. Við lifum öll í dag í skugga kross. Okkar kross og ógn er þessi kóvíð-veira. Við lifum í skugga veirupestar, þar sem saklaust fólk þjáist og deyr.
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að sýna öðru fólki samstöðu, kærleika og samúð. Við ættum að hringja í ættingja okkar og vini. Og þó svo að við getum ekki mætt í jarðarfarir samferðafólks okkar þá er samt aldrei mikilvægara en einmitt núna að sýna fólki hluttekningu með því að senda því skeyti eða hringja bara í blómabúðina og biðja þá um að senda fólki blóm. Sem betur fer þá hjálpar síminn og tölvurnar okkur til að vera í sambandi við annað fólk. Það ættum við að nýta okkur óspart á þessum tímum.
En hvenær kemur svo páskadagurinn, dagur upprisu og vonar? Við vitum hvenær hann er á dagatalinu. En ég er að tala um annan dag þegar drepsóttin er gengin yfir. Hvenær verður það? Það veit enginn. En hann pabbi minn, sem verður 87 ára í maí, sagði mér að þegar þessi pest væri afstaðin þá ætlaði hann að fara á fínt veitingahús og fá sér góða steik með rauðvíni.
Franska orðið fyrir föstu er „carême“. En þetta orð getur líka merkt einangrun enda þótt orðið „quarantaine“ sé oftast notað. Við höfum í raun verið neydd til að fasta. Við verðum að neita okkur um faðmlög, knús og kossa. Við getum ekki heimsótt aldraða ættingja okkar og vini. Við föstum á mannlegt samfélag. Þegar þeirri föstu lýkur þá koma páskarnir. Og svo haldið sé áfram með orðsifjafræðina þá er orðið páskar dregið af gríska orðinu „paskó“, sem þýðir að fara fram hjá. Orðið vísar til tíundu plágunnar í Egyptalandi þegar engill dauðans fór fram hjá dyrum Gyðinganna meðan þeir neyttu páskamáltíðarinnar. Þegar engill dauðans hefur farið fram hjá okkar dyrum þá koma páskarnir.
Kæri lesandi, megir þú upplifa gleðilega páska!
Magnús Erlingsson,
prófastur á Ísafirði.