Nokkur fjöldi fólks er í áhættuhópi fyrir COVID-19 og veigrar sér við að fara út úr húsi til að blanda geði við aðra.
Skipulagt félagsstarf eldri borgara liggur niðri að mestu leyti, búið er að fresta tímabundið heimsóknarþjónustu til fólks í áhættuhópi og heimsóknir á heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili eru bannaðar.
Því er mikil hætta á að fólk við slíkar aðstæður lendi í félagslegri einangrun.
Í dagsins önn getur það gerst að það gleymist að huga að eldra fólki. Sumir eiga ekkert tengslanet meðan aðrir hafa margt fólk á bak við sig. Við þessar aðstæður er mikilvægt að við tökum samfélagslega ábyrgð og heyrum í fólkinu okkar.
Rauði krossinn er með Hjálparsímann 1717 þar sem sérþjálfaðir sjálfboðaliðar svara allan sólarhringinn.
Rauði krossinn hefur undanfarið auglýst eftir sjálfboðaliðum um allt land sem vilja starfa tímabundið meðan þetta ástand varir og hafa margir brugðist skjótt við. Fólk getur skráð sig, tekið grunnnámskeið á heimasíðu félagsins og lagt þannig sitt af mörkum. Listi yfir þessa sjálfboðaliða er þá til hjá Rauða krossinum ef á þarf að halda.
Hægt er að skrá sig hér https://www.raudikrossinn.is/covid-19
Svo er hægt að senda óskir um frekari upplýsingar á netfangið bryndis@redcross.is