Sanderla var fugl gærdagsins hjá Fuglavernd en félagið leggur sitt af mörkum með fugli dagsins næstu vikurnar til þess að stytta landsmönnum stundirnar og dreifa huganum meðan Covid19 fer um landið.
Sanderla er lítill, kvikur og ljósleitur vaðfugl. Hún er mjög kvik og á sífelldu iði. Hún er félagslynd og sést hér oftast í litlum hópum. Gefur frá sér stutt og hvellt hljóð.
Leitar oftast ætis með því að hlaupa til og frá í sandfjörum, elta öldusogið og tína úr því fæðuna, sem eru burstaormar, samlokur, marflær og skordýr.
Sanderla er hánorrænn varpfugl sem verpur hér og hvar í heimskautalöndum en er strandfugl á vetrum í tempraða beltinu, nánast á öllu suðurhveli. Grænlenskir fuglar, sem hafa vetursetu á Atlantshafsströnd Evrópu og Afríku, fara hér um vor og haust, einkum Vesturland og í auknum mæli að því er virðist um Melrakkasléttu í seinni tíð.
Sá sanderlustofn sem fer hér um er stór og hefur vaxið samkvæmt athugunum erlendis. Hann er því ekki talinn í hættu (LC).
Þessi stofn var metinn um 120 þúsund fuglar milli 1990 og 2000 en nú um 200 þúsund fuglar enda hefur þeim fjölgað um 4% á ári um langt skeið. Hugsanlegt er að fuglar sem verpa í NA-Kanada fari hér eitthvað um, því sumir þeirra virðast notað A-Atlantshafsfarleiðina. Allar sanderlur sem virtust á farflugi á SV-landi stefndu þó í NNA, þ.e. í átt að varpstöðvum á NA-Grænlandi.
Hér á landi hafa mest verið taldar rúmlega 8.000 sanderlur sama árið. Hver og einn fugl virðist hafa hér stutta viðdvöl (3 dagar að meðaltali) og vegna mikillar umsetningar getur fjöldi fugla sem fer um verið mun meiri en hæstu talningar gefa til kynna.
Ábyrgðartegund Íslendinga
Ábyrgðartegundir okkar Íslendinga miða við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Sanderla (Calidris alba) (e. Sanderling) er ein af ábyrgðartegundum okkar Íslendinga.