Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á útkallslista

Heilbrigðisyfirvöld óska eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks úr hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í svokallaða bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Fyrirsjáanlegt er að mikilvægar heilbrigðisstofnanir muni á næstunni þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna COVID–19 veirunnar vegna veikindafjarvista eða fjarvista heilbrigðisstarfsfólks sem þarf að sitja tímabundið í sóttkví, líkt og þegar eru dæmi um.

Með því að koma á fót bakvarðasveit eins og hér um ræðir, með lista yfir heilbrigðisstarfsfólk sem er reiðubúið til að hlaupa í skarðið ef á reynir, standa vonir til þess að heilbrigðisstofnanir geti mannað í stöður með hraði þegar á þarf að halda.

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu og jafnvel í fullt starf eða hlutastarf í allt að tvo mánuði ef hentar.

DEILA