Ögri er sexæringur, smíðaður um 1880-1890 af Kristjáni Kristjánssyni bónda og skipasmið í Þúfum í Reykjafjarðarhreppi.
Báturinn var byggður fyrir bóndann í Ögri við Ísafjarðardjúp, sennilega Jakob Rósinkarsson, en hann var seinni maður Þuríðar Ólafsdóttur húsfreyju þar. Jakob dó 1894 og tók þá Þuríður við búi. Hún lést 1921. Smíðaár er óvíst en gæti verið um 1890, jafnvel fyrr eða um 1880.
Ögri var fiskibátur og notaður sem slíkur til 1924 og ýmist róið úr heimavör eða frá Bolungarvík.
Hann var seinast sjósettur sumarið 1952. Þá var komin bryggja í Ögurvík og ekki lengur þörf á uppskipunarbáti. Síðan var Ögri geymdur á hvolfi utanhúss og búið um hann eftir því sem tök voru á. Framstefni slitnaði frá kjöl þegar verið var að draga bátinn á land með spili.
Hann hefur alla tíð verið í eigu ábúenda Ögurs og er eini vestfirski sexæringurinn sem varðveist hefur óbreyttur.
Sexæringurinn er með lagi sem algengt var við Ísafjarðardjúp, stefni hringmynduð og lotmikil en einkum þó að framan, að mestu úr furu nema kjölurinn, sem er úr eik, súðbyrtur, einmastra, með fjórum þóftum, bugspjóti og stýri. Á mastri er þversegl og auk þess forsegl, fokka.
Mesta lengd bátsins er 7,81 m, breidd 2,05 m, dýpt 70 sm. Vetrarvertíðarbátar voru oftast sex- og áttæringar. Umfangsmikil viðgerð hefur farið fram á Ögra og lauk henni árið 2000.
Ögri er í eigu Þjóðminjasafns Íslands.