Landvernd ríkisins, kærðu meir, kærðu meir

Það er aldrei mikilvægara en á hættutímum að að til séu félög og stofnanir sem halda vöku sinni. Tryggi með vökulum augum sínum að mannkynið fari sér, þrátt fyrir allt, ekki að voða. Gleymi ekki aðalatriðum lífsins. Að allt verði nú í röð og reglu hjá þeim er lifa af.

Um aðeins tuttugu ára skeið hafa íbúar á Vestfjörðum gengið fram með offorsi í umgengni sinni við náttúruna. Skipulagt akfæran veg í afar sjaldgæfum og  ómetanlegum kjarrgróðri kenndum við Teig. Þar sem að auki standa tvær ómetanlegar byggingar á barmi húsfriðunar.

Vegi þessum hefur verið ætlað að, því sem íbúarnir kalla, auðvelda samkipti við annað fólk og þeir ómerkilegustu í þeirra hópi hafa verið svo óforskammaðir að kalla þessa vegalangingu réttlætismál. Réttlætismál!!! Hver segir að íbúar landsins  eigi að sitja við sama borð?

Steininn tók þó úr þegar atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum fór að ná vopnum sínum að nýju. Hófst þá heimtufrekja þeirra um að leggja þyrfti  betri veg af svæðinu svo koma mætti matvælaframleiðslunni á markað. Síðan hvenær varð fiskur matvæli? Af hverju borða ekki fleiri kökur?

Landvernd ríkisins hefur með vasklegri framgöngu sinni flett ofan af  þessum blekkingarleik íbúa Vestfjarða.  Komið í veg fyrir það fljótræði og tilætlunarsemi að hægt sé að ráðast í vegalagningu með eingungis tveggja áratuga málsmeðferðarhraða.

Landvernd ríkisins  nýtur, eðli málsins samkvæmt,  dyggilegs stuðnings  fjárveitingavaldsins og eiga alþingismenn ævarandi þakkir skyldar fyrir stuðning þeirra við þessa þjóðþurftarstofnun.

Í skjóli veirustormsins sem nú geisar um heimsbyggðina reyndu Vestfirðingar að lauma með bráðræði sínu þessari stórhættulegu framkvæmd í gegnum skjótvirkt embættiskerfi landsmanna. Sem betur fer tókst sú lymskufulla aðgerð ekki.

Vökul augu Landverndar ríkisins björguðu guðsvolaðri þjóð enn einu sinni.  Síðasta kæran var ekki komin fram.

Halldór Jónsson.

DEILA