Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða (aðrir faraldrar voru MERS-sýkingin í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sýkingin frá Kína á árunum 2002–2003). SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.
Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?
Orsök núverandi faraldurs er ný tegund kórónaveiru sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Veiran var fyrst nefnt 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif í Kína og á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði.
Uppruni veirunnar virðist hafa verið í Wuhan borg í Kína og tengd ákveðnum matarmarkaði í borginni, sem verslaði með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega með annan, óþekktan, millihýsil áður en smit barst í menn og loks manna á milli.
Er til bóluefni og hver eru einkennin?
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.
Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og því ekki hægt að bólusetja.