Heilbrigðisstofnun Vestfjarða frestar árshátíð

Vegna þróunar undanfarna daga á COVID-19 sjúkdómnum er það sameiginlegt mat umdæmislæknis sóttvarna og framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að fresta verði árshátíð, sem halda átti 14. mars í Bolungarvík.

Hádegisverðurinn sem halda átti daginn fyrir árshátíð, og í ár átti að vera með Laddaþema, frestast einnig. Staðan verður endurmetin reglulega en líklegast er að árshátíðin fari fram í haust.
Öðru félagsstarfi á vegum starfsmannafélagsins verða einnig settar skorður.

Fyrir stóra stofnun sem er hluti af grunnþjónustu samfélagsins er það óábyrgt að halda viðburð þar sem allir heilbrigðisstarfsmenn af stóru svæði safnast saman í návígi.
Ef setja þyrfti alla gesti slíkrar samkomu í sóttkví væru afleiðingarnar alvarlegar fyrir stofnunina, skjólstæðinga og samfélagið.

Stjórn starfsmannafélags og skemmtinefnd voru með í ráðum við ákvörðunina sem tekin var fyrr í dag. Enginn tekur svona ákvörðun að gamni sínu; undirbúningur árshátíðarinnar var langt kominn, búið að ráða fínan veislustjóra að sunnan, skrifa óborganleg skemmtiatriði og margir búnir að bóka bæði pössun og tíma í hárgreiðslu.
Árshátíðin í haust verður ennþá skemmtilegri fyrir vikið.

DEILA