Hagstofan: verð á fiskmörkuðum 39% hærra en í beinum viðskiptum

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Meðalverð á þorski seldum á fiskmörkuðum á síðasta ári var 312 kr/kg. Það er 39% hærra en verðið í beinum viðskiptum sem var 224 kr/kg.  Munurinn er 88 kr/kg.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Þrátt fyrir þennan verðmun var 71,5% af þorskaflanum seldur í beinum viðskiptum en aðeins 13,6% á fiskmarkaði.

Alls voru veidd 256 þúsund tonn af þorski á árinu 2019. Í beinum viðskiptum voru seld 183 þúsund tonn, en aðeins 34.800 tonn voru seld á fiskmarkaði. Minnkaði magnið um 18% frá 2018 en þá voru 42.400 tonn seld á fiskmarkaði. Í sjófrystingu fóru í fyrra 32.800 tonn og 3.900 tonn fóru í gáma til útflutnings.

Verðmæti þorskaflans 2019 var 65,3 milljarðar króna. Fyrir beina sölu var greitt 41 milljarður króna. Á fiskmörkuðunum var selt fyrir 10,8 milljarða króna og 11,7 milljarðar króna var greitt fyrir sjófrysta þorskinn. Meðalverðið í beinni sölu varð sem fyrr segir 224 kr/kg, á fiskmarkaði varð það 312 kr/kg og 356 kr/kg var meðalverðið á sjófrystum þorski.

16 milljarðar króna

Verðmunurinn á beinum viðskiptum og fiskmarkaði er 88 kr/kg. Ef greitt hefði verið í beinum viðskiptum það verð fyrir þorskinn sem fékkst fyrir á fiskmörkuðum hefði aflaverðmætið aukist um 16 milljarða króna. Áætla má að um 30% af því hefði runnið til sjómanna og aflahlutir þeirra hefðu verið um 5 milljörðum króna hærri.

Verðið á sjófrystum fiski er tengt við verð á erlendum mörkuðum og þar sem það er hæst er það skýr vísbending um það verð sem að lokum erlendi markaðurinn greiðir fyrir þorskinn.

DEILA