Hafsjór af hugmyndum – Drangur

Fiskvinnslan Drangur er staðsett í litlu heillandi þorpi á Ströndum sem er best þekkt fyrir heitu pottana sem eru í fjöruborðinu.  Á Drangsnesi leggjast allir á eitt til að hlutirnir gangi upp, fólkið í þorpinu og sveitarfélagið.

Fiskvinnslan Drangur er beintengd náttúrunni og framleiðslan fylgir árstíðunum en þar er unninn ferskur og saltaður bolfiskur, stundaðar línuveiðar og línan beitt í höndum. Allir fara á fullt á grásleppuvertíð á vorin og svo hefur verið vöxtur í krækklingarækt yfir sumartímann undanfarin ár.  Það er mikilvægt fyrir þorpið að fyrirtækið gangi vel og því er stöðugt fylgst með þróun mála til að spegla sig í nýjum tækifærum. Drangur er þáttakandi í sjávarútvegsklasa Vestfjarða og verkefninu “Hafsjó af hugmyndum”.  Þá er rétt að nefna að Drangsnesingar hafa verið í frumkvöðlastarfi allt frá fjórða áratugnum, en talið er að verkun á hákarli hafi byrjað á þessum slóðum.

Fyrirtækið gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu og einhugur um að fyrirtækið og fólkið mynda órjúfanlega heild.  Margir spyrja sig hvernig hægt sé að reka svona litla vinnslu úti á landi en ef fyrirtækið er í fullkomnum takti við náttúruna og samfélagið og ef allir vinna saman þá getur þetta gengið upp. Sjálfbærni er eitt af lykilatriðnum við nýtingu náttúruauðlinda.

Nýsköpunarkeppnin “Hafsjór af hugmyndum” er spennandi tækifæri fyrir frumkvöðla til að vinna að nýjum hugmyndum sem efla Vestfirskan sjávarútveg og Drangur er eitt þeirra fyrirtækja sem standa að keppninni og styrkjum til háskólaverkefna.

Í þessu myndbandi er hægt að kynnast starfsemi Drangs: https://www.youtube.com/watch?v=fOvlNXJZ1i4&t=41s

Hér er hægt að kynna sér  nýsköpunarkeppnina og háskólaverkefnið nánar: https://www.vestfirdir.is/is/verkefni/hafsjor-af-hugmyndum

Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði sem hluti af Sóknaráætlun og er unnið í samstarfi við Vestfjarðastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

DEILA