Á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum segir í fyrradag frá sérkennilegum þorski:
Gulasti þorskur Íslandsþorskunnar kom í gær á land úr Drangavík VE. Enginn hjá Vinnslustöðinni sem leit fyrirbærið augum kannaðist við að hafa séð neitt því líkt fyrr eða síðar.
„Margt skrítið hef ég séð um dagana en þetta er nú eitt magnaðasta helvíti úr sjó sem fyrir augu mín hefur borið um dagana. Þarna virðast Eyjamenn hafa veitt eina gulleintakið í þorskstofninum!“ varð dr. Gunnari Jónssyni fiskifræðingi að orði þegar hann leit á myndir af „gulbínóanum“.
Gísli Jónsson, sérgreinalæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, fékk líka myndir af „gulbínóanum“ til skoðunar. Hann skrifaði í tölvupósti að í raun væri ótrúlegt að þessi fiskur hefði ekki drepist fyrir löngu vegna eineltis!
Mér sýnist á öllu að hér sé um meðfæddan erfðagalla að ræða. Þetta er „hvítingi“ (réttara væri að kalla hann „gulingja“ þegar um þorsk er að ræða!). Það vantar allar eðlilegar litafrumur í roðið og þess vegna fær það þennan glæra og gulleita blæ.
Fiskurinn var veiddur á 70 faðma blettum 9 mílur vestur af Surtsey kl. 9 í gærmorgun, 17. mars. Nákvæm staðsetning: 63.20 N 20.57 W, svo það sér sagt líka.