í frétt frá Matvælastofnun kemur fram að tilkynning hafi borist frá Sjávareldi (Hábrún hf.) föstudaginn 20. mars um göt á nótapoka tveggja sjókvía fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi.
Götin uppgötvuðust við neðansjávareftirlit þann 19. mars og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Sjávareldis (Hábrúnar hf.) voru götin þrjú um 20x30cm hvert á um 2 metra dýpi. Í þessum tilteknu kvíum voru í sitthvorri rúmlega 26.000 regnbogasilungar með meðalþyngd 1,1 kg.
Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt 19. október sl. og var nótarpoki þá heill.
Matvælastofnun hefur kallað eftir gögnum og upplýsingum er varða viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til meðferðar hjá stofnuninni. Sjávareldi (Hábrún hf.) lagði út net til að kanna hvort strok hafi átt sér stað og var Fiskistofa upplýst um málið. Netanna var vitjað bæði á föstudag og laugardag.
Enginn silungur veiddist og hefur veiðiaðgerðum verið hætt.