Vegna fréttaflutnings um einelti í stofnun sveitarfélagsins vill Vesturbyggð koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Patreksskóli er ein af grunnstofnunum sveitarfélagsins og þar fer fram öflugt og faglegt skólastarf. Við skólann starfa 25 starfsmenn sem sinna störfum sínum af miklum heilindum og faglegheitum, til að tryggja börnum í Vesturbyggð fyrsta flokks menntun. Ytra mat á Patreksskóla var gert árið 2017 að hálfu menntamálaráðuneytisins og unnið hefur verið að nokkrum umbótum. Nú stendur svo yfir vinna við innra mat skólans. Vesturbyggð er því ákaflega stolt af því góða og mikilvæga starfi sem fer fram í Patreksskóla.
Vesturbyggð lítur eineltismál sem upp koma milli starfsmanna sveitarfélasins alvarlegum augum og er tekið á slíkum málum í samræmi við viðbragðsáætlun Vesturbyggðar og ákvæði reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kyndbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
Patreksskóli starfar í samræmi við öryggisáætlun skólans, en þar segir að stefna skólans sé að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verði undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. Um viðbrögð við tilvikum þar sem upp kemur einelti er farið eftir ákvæðum reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.