Vesturbyggð: Helluvirkjun samþykkt sem virkjunarkostur

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að Helluvirkjun verði bætt inn sem virkjanakosti á tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2030.

Ágreiningur var um málið. Jóhann Pétur Ágústsson greiddi atkvæði gegn tillögunni og lét  bóka að Orkubú Vestfjarða færi ekki rétta boðleið í þessu máli þar sem eðlilegra hefði verið að sækja um leyfi landeigenda áður en OV sótti um leyfi til byggingar Helluvirkjunar. Orkubúið hafði sótt um leyfið í júní 2017. Þá bókaði skipulags- og umhverfisnefndin að yfirstandandi væri vinna við endurskoðun aðalskipulags Vesturbyggðar og yrði  tekin afstaða til virkjunarkosta í þeirri vinnu. Nú hálfu þriðja ári síðar óskaði Orkubú Vestfjarða eftir því fá svör. Einn nefndarmanna Friðgerður Matthíasdóttir sat hjá vegna tengsla við aðila máls en þrír nefndarmenn samþykktu afgreiðsluna.

 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tók málið fyrir í síðustu viku. Vísaði bæjarstjórnin til bókunar skipulags- og umhverfisráðs og vísaði  umfjöllun um virkjunarkosti í aðalskipulag Vesturbyggðar til umfjöllunar í vinnuhópi sem vinnur nú drög að aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Orkubú Vestfjarða fékk í júní 2016 leyfi Orkustofnunar til sex ára þess að rannsaka vatnasvið Helluvatns og falls úr vatninu til sjávar við Eiði í Vatnsfirði. Fallið er 285 metrar. Virkjunin gæti verið allt með að 3 MW afl og framleiðslu á 18 GWst á ári. Leyfið tekur til rannsóknarsvæðis í friðlandinu í Vatnsfirði.

Í erindi Orkubúsins frá 2017 kemur fram að á rannsóknartímanum verði tekin afstaða til nýrrar bortækni  þar sem gert er ráð fyrir að hluti af vatnsvegi yrði um boruð göng niður brattasta hluta hlíðarinnar. Segir að aðrar aðferðir án borunar yrðu of áberandi í grónni hlíðinni.

Miðlun í Helluvatni er áætlun 2 Gl sem er talið mjög gott en innrennslið er of lítið og því þarf að veita frekara vatni í Helluvatni frá öðrum vatnasviðum. Þá kemur fram að staðsetning virkjunarinnar yrði mjög heppileg sem varaafl fyrir svæðið.

Engar verklegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á rannsóknartímanum.

DEILA