Umsókn um fiskeldi í Djúpinu: Nærri þrjú ár milli stofnana

Umsókn Arctic Sea Farm fyrir 4000 tonna rekstrarleyfi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi barst Matvælastofnun 1. september 2016. En tilkynning vegna framkvæmdar Arctic Sea Farm (þá Dýrfiskur) var send Skipulagsstofnun 20. desember 2013 segir Erna Karen Óskarsdóttir fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd  Ísafjarðarbæjar lýsti í fyrra yfir undrun sinni á fyrirkomulagi leyfisveitinga í fiskeldi  þar sem Unhverfisstofnun hefði afgreitt starfsleyfi 2015 en Matvælastofnun hefði ekki afgreitt umsókn um rekstrarleyfi.

„Að ósk ASF hafa aðrar rekstrarleyfisumsóknir fyrirtækisins verið afgreiddar á undan umræddri umsókn, þ.á.m. umsókn í Patreks- og Tálknafirði í desember 2017, umsókn í Dýrafirði desember 2017 og aftur endurútgáfa rekstrarleyfisins í Patreks- og Tálknafirði í ágúst 2019.“ segir í svari Matvælastofnunar.

Ennfremur að Matvælastofnun vinni nú að útgáfu rekstraleyfis ASF að Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Rekstrarleyfið mun verða gefið út til fjögurra ára skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Sea Farm sagði að starfsleyfi hefði verið gefið út fyrir nærri fimm árum og að starfs- og rekstrarleyfi ætti að vinnast samtímis. Hann staðfesti hins vegar að óskað hefði verið eftir því að afgreiða aðrar umsóknir fyrst eins og tilgreint væri.

Miðað við svör Matvælastofnunar virðist sem umsóknin sem send var Skipulagsstofnun í desember 2013 hafi ekki borist Matvælastofnun fyrr en í september 2016, rúmu ári eftir að Umhverfisstofnun hafði gefið út starfsleyfið.

DEILA