Seigla íslenskra sjávarbyggða: möguleikar og áskoranir

Gestur í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða er Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetrinu og verður í erindi hans sjónum beint að byggðaþróun á Íslandi og á Vestfjörðum.

Matthias er með doktorsgráðu í landafræði frá Háskóla Íslands og fjallar doktorsrannsókn hans, sem erindið byggir að miklu leyti á, um seiglu íslenskra fiskveiðisamfélaga og þær félags-og efnahagslegu sem og lýðfræðilegu áskoranir sem strandbyggðir á Íslandi hafa undanfarna áratugi staðið frammi fyrir. Matthias hefur sérstakan áhuga á tímabilinu eftir 1990 og innleiðingu kvótakerfisins sem hafði í för með sér miklar skipulagsbreytingar og umbreytingar í íslenskum sjávarútvegi.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.
Matthias hóf störf hjá Háskólasetri Vestfjarða árið 2019 þegar hann var ráðinn fagstjóri fyrir námsleiðina Sjávarbyggðafræði sem hleypt var af stokkunum sama ár. Auk þess að vera fagstjóri kennir Matthias tvö námskeið í þessari námsleið, Introduction to Regional Geography (Inngangur að byggðalandafræði) and Public Policy (Opinber stefna).

Vísindaportið er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Að þessu sinni verður erindið flutt á ensku. Verið velkomin.

DEILA