Ríkislögreglustjóri lýsir yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands, sem spáir aftakaveðri með appelsínugulum veðurviðvörunum um allt land.
Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir: Ef veðurspáin gengur eftir verður ekkert ferðaveður á Vestfjörðum, einnkum á norðanverðum. Er fólki því ráðlagt að vera ekki á ferðinni á milli þéttbýliskjarna nema nauðsyn beri til, meðan þetta ástand varir.
Búast má við að vegir teppist eða verði lokað ef hætta á ofanflóðum skapast.
Lögreglan hvetur til þess að fylgst sé með verðurspá á vef Veðurstofu Íslands og eins skoði upplýsingar um veður og færð á vef Vegagerðarinnar og eins er hægt að hringja í upplýsingasíma hennar, 1777.
Þá kemur fram í tilkynningu frá Landsneti að hætta er á truflunum á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi snemma í fyrramálið og fram yfir hádegi. Undir hádegi verður mikið vindálag á línum á Norður- og Austurlandi og á Vestfjörðum.