Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur fellt brott 144 reglugerðir á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðar. Á sviði matvæla- og landbúnaðar er um að ræða 59 reglugerðir og á sviði sjávarútvegs- og fiskeldis er um að ræða 85 reglugerðir. Breytingarnar eru liður í aðgerðaáætlun um einföldun regluverks sem Kristján Þór og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, áttu frumkvæði af og er forgangsverkefni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Alls hafa 1242 reglugerðir nú verið felldar brott á síðustu mánuðum, en í október sl. felldi Kristján Þór brott 1098 reglugerðir.
Verkefnið er unnið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að gert verði átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Með þessu erum við að stíga enn eitt skrefið í því að hreinsa til í regluverkinu á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Þetta er hagsmunamál fyrir allt samfélagið, enda er einfalt og skilvirkt eftirlit eitt helsta verkefni stjórnvalda til að tryggja sem best stöðugleika í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja til lengri tíma og búa þeim samkeppnishæft starfsumhverfi. Aðgerðaáætlun ráðuneytisins miðar vel en er hins vegar hvergi nærri lokið. Þannig mun ég síðar í þessum mánuði birta drög að frumvarpi til einföldunar regluverks og ráðgeri að mæla fyrir því á Alþingi síðar í vor.”
Einföldun regluverks er meðal annars gerð með því að uppfæra, sameina og fella brott reglugerðir sem gerir það að verkum að regluverk á sviði sjávarútvegs verður aðgengilegra. Einnig er um að ræða reglugerðahreinsun sem fellir brott tímabundnar reglugerðir sem hafa ekki lengur gildi og felldar eru brott reglugerðir sem hafa verið settar með stoð í lögum sem hafa verið felld úr gildi. Allt er þetta liður í aðgerðaáætlun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til næstu þriggja ára sem lítur að einföldun regluverks.